Kynlíf eftir ofbeldi

1:22:34

1.699kr.

Flokkar: , Merkimiðar: ,

Lýsing

„Manneskja sem verður fyrir ofbeldinu, þegar hún fer í samband þarf hún að takast á við allskonar triggera á hverjum degi sem hún kannski áttar sig ekki á… það geysar rosalegur stomur inni í manneskjunni“

Sálfræðinginn Sigríði Björnsdóttur þekkja margir því hún, ásamt systur sinni Svövu, stofnaði samtökin Blátt áfram sem hefur unnið ötult forvarnarstarf í tengslum við kynferðisofbeldi gegn börnum.

Algeng spurning sem ég fæ gjarnan frá fólki er, hvernig það lifir góðu kynlífi eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi. Sigríður gefur okkur hér góð ráð og setur hlutina, tilfinningar og upplifanir í samhengi. Og gefur von.

Við erum í samfélagi sem á um þessar mundir í miklu uppgjöri gagnvart ofbeldi og hefur það verið, og mun vera, snúið samtal. Því það er eitt að greina frá ofbeldinu og annað að vinna svo áfram inn í lífið og samböndin sín. Þar vona ég að nafna mín færi þér ákveðin verkfæri.

Við spjöllum um hvaða áhrif kynferðisofbeldi í æsku hefur á kynlíf þeirrar manneskju seinna þegar viðkomandi fullorðnast, og hver munurinn sé á því að verða fyrir ofbeldi í æsku og á fullorðinsaldri. Við tölum um traust, mörk, líkamsminni, samskipti, markarleysi, og að tala um það sem okkur þykir óþægilegt.

„Ég held að við gætum stoppað miklu fleiri gerendur ef við horfum á hegðun þeirra sem börn“

Ég hélt næstum niðri í mér andanum allt viðtalið því mér þótti þetta svo merkilegur og dýrmætur fróðleikur og ég var svo hrædd um að trufla eitthvað flæði eða stundina. Þetta er spjall sem getur tekið á rist viðkvæmar taugar en þetta er mikilvægt spjall.

Ég veit að margir munu öðlast betri og dýpri skilning á sjálfu sér og jafnvel öðrum við það að hlusta á nöfnu mína fræða okkur um áhrif ofbeldis, og að það sé líf handan ofbeldisins.

Það sem mér þótti mjög merkilegt var hvernig það hefur áhrif á sambandið ef að ein manneskja í sambandinu hefur orðið fyrir ofbeldi, og hvernig parið þarf að kortleggja sín samskipti í kjölfarið. Og þá meina ég, að manneskjan sem ekki varð fyrir ofbeldinu þarf einnig að fara í gegnum sínar tilfinningar gagnvart ofbeldinu og parið þarf að halda samskiptum sínum extra opnum til að geta skilið og brugðist við triggerum. Sérstaklega þegar kemur að innilegum samskiptum eins og í kynlífi og að skilja hvað kynlíf sé og hvað ekki innan sambandsins og hvaða þýðingu það hefur. Þetta hefst ekki nema með mjög opnum samskiptum og sjálfsþekkingu.

Við töluðum einnig mikið um mörk og markarleysi því það er eitt heitasta umræðuefnið um þessar mundir en það getur verið mjög erfitt að setja fólki mörk, sérstaklega ef samskiptin hafa einkennst af markarleysi og meðvirkni.

Eitt sem mér fannst sérstaklega geggjað við þetta viðtal er æfingin sem hún kennir okkur undir lokin, hvernig við byggjum upp sjálfstraust og höldum í það þegar við förum inn í aðstæður sem okkur þykja yfirþyrmandi eða óþægilegar.

Hefurðu prófað fiðrildaæfinguna?