Lýsing
Ég skil að þetta samtal getur verið óþægilegt og krefjandi og leiðinlegt og vandræðalegt og allskonar. Og það má alveg segja það. Það má nefna tilfinningarnar sem þú hefur um þetta samtal. Og orðin sem stinga, það má líka tala um þau.
Þetta samtal snýst um að þora og að taka pláss.
Ekki bætir það úr skák þegar maki neitar að eiga þetta samtal.
En mig langar að biðja þig um smá þolinmæði og biðlund en jafnframt impra á því að það er ekki í boði að neita að tala um kynlíf. Kynlíf er svo stór hluti af ástarsamböndum fullorðinna og það er ekki í boði að forðast samtalið. Það er hinsvegar staður og stund fyrir allt og það er ekki gott að detta í alvarlegt spjall í koddahjalinu eftir kynlíf.
Þetta samtal er gott að eiga á hreyfingu, eins og í bíltúr eða göngutúr. Eða á hlutlausum stað eins og á kaffihúsi, í einrúmi í heita potti, eða veitingastað.
Og það er óþarfi að fara í fýlu – þó þetta sé erfitt samtal. Þetta samtal er tilraun til tengingar og þróunar.
Það er ekki í boði að neita ræða þetta eða segja „alltaf“ eða „aldrei“. En það má líka taka pásu og geyma samtalið og hafa það kaflaskipt yfir smá tíma.
Ef þetta samtal reynist ykkur ofviða þá er um að gera að leita sér aðstoðar og fá hjálp við að ræða saman og hefja samtalið!